Færsluflokkur: Kvikmyndir

2012 (2009) ****

Unknown

2012 er frábær kvikmynd. Hún er Independence Day (1996) með góðu atriðunum en það er enginn tölvuvírus sem bjargar deginum gegn illum geimverum, Titanic (1997) án asnalegs illmennis og syndaflóðið úr Genesis með Nóa í aukahlutverki. Það eru vissulega illmenni í þessari mynd, og flest eru þau það vegna stöðu sinnar í þjóðfélaginu og auðs. Aðal illmennið, Anheauser, sem er vel leikið og áhugavert í höndum Oliver Platt er skýrt í höfuð á einu af fyrirtækjunum sem bandaríska ríkið þurfti að bjarga með gífurlegu fjármagna á kostnað bandarískra þegna. Hann selur jafnvel mömmu sína í skondnu atriði.

2012_01

Roland Emmerick leikstýrir myndinni, greinilega endurnærður og ferskur eftir að hafa skilað af sér einni ömurlegustu kvikmynd allra tíma, 10.000 BC (2008). Ég hef yfirleitt haft mjög gaman af myndum hans, fyrir utan 10.000 BC að sjálfsögðu, en upp úr standa Universal Soldier (1992) þar sem Jean Claude Van Damme og Dolph Lundgren leika hermenn sem hafa verið uppfærðir með tölvuheila og líkamsstyrk, en heilaþvotturinn virkar ekki nógu vel og góðmennið Damme þarf að taka á stóra sínum gegn illmenninu Lundgren. Einnig leikstýrði hann Independence Day, þar sem Will Smith kýldi geimverur kaldar og Jeff Goldblum fann upp tölvuvírus sem hægt er að hlaða inn í lélegan eldvegg geimveranna.

2012_02

Ekki má gleyma hinni hötuðu en skemmtilegu Godzilla (1998), þar sem Matthew Broderick og íbúar New York flýja undan risavaxinni eðlu, þar til Broderick fattar að þetta er bara stórt dýr. Fyrst ég er byrjaður að telja upp, þá gerði hann einnig Stargate (1994) um vísindamanninn James Spader og hóp hermanna sem Kurt Russell leiðir sem ferðast um heimsins víddir gegnum stjörnuhlið. Fullt af sjónvarpsþáttum hafa verið framleiddir í framhaldi. Einnig gerði hann The Patriot (2000) sem kom Heath Ledger á framfæri í Hollywood, þar sem hann lék son og skyggði á Mel Gibson, en það skapaði ákveðið ójafnvægi í myndinni. Einnig gerði hann The Day After Tomorrow (2004) þar sem Jake Gyllenhall og Dennis Quaid þurfa að takast á við heljarfrost sem skellur á og frystir heiminn, með skelfilegum afleiðingum. Engin af ofantöldum myndum jafnast samt á við 2012.

2012

Sagan er sáraeinföld, og virkar vel hugsanlega vegna þess að rammi hennar er nokkuð sem allir þekkja, mýtan um syndaflóðið og örkina hans Nóa úr Genesis Biblíunnar. Það er gert nokkuð ljóst að Guð er ekki sáttur við nútímamanninn, en vísbending um það er þegar sprunga aðskilur fingur Adams og Guðs í frægu listaverki Leonardo Da Vinci í lofti rómverskrar kirkju. Mig grunar að leikstjórinn hafi slíka tilfinningu vegna ógurlegrar spillingar í stjórnmálum og fyrirtækjum, eins og Íslendingar hafa einnig þurft að upplifa síðustu ár, að hann telur þörf á að hreinsa svolítið til. Byrja upp á nýtt. Hljómar kunnuglega, ekki satt?

2012_05

Sagan er einföld. Indverskur vísindamaður, Dr. Satnam Tsurutani (Jimi Mistry) uppgötvar samband sólgosa og aukins hita í kjarna Jarðarinnar, og fræðir vísindaráðgjafa forseta Bandaríkjanna, Dr. Adrian Helmsley (Chiwetel Ejiofor) um stöðu mála. Helmsley fer á fund með starfsmannastjóra Hvíta Hússins Carl Anheuser (Oliver Platt) sem kemur honum í beint samband við forseta bandaríkjanna, Thomas Wilson (Danny Glover). Þeir hafa þrjú ár til að undirbúa áætlun sem bjarga á mannkyninu frá glötun.

2012_06

Rithöfundurinn Jackson Curtis (John Cusack) uppgötvar að eitthvað er ekki í lagi þegar hann fer í útilegu með börnum sínum, Nóa (Liam James) og Lilly (Morgan Lily) til Yellowstone Park, en þar hefur eftirlætis stöðuvatnið hans þornað upp. Áður en hann getur skoðað svæðið almennilega hefur hann verið umkringdur af alvopnuðum hermönnum Bandaríkjahers. Hann er færður fyrir Dr. Adrian Helmsley, sem reynist vera einn af örfáum aðdáendum hans, en Curtis hafði skrifað skáldsögu um endalok Jarðar og viðbrögð stjórnvalda við slíkum hamförum. Curtis er fylgt út af svæðinu, en furðulegur dómsdagsspámaður með útvarpsþátt hefur sínar eigin kenningar um hvað er á seyði, og kemur Curtis á sporið um samsæri sem er í gangi til að fela hörmungarnar sem ógna heiminum. Þessi klikkaði spámaður, Charlie, er leikinn snilldarlega af hinum stórskemmtilega Woody Harrelson.

2012_04

Það tekur Curtis smá tíma að melta upplýsingarnar, en tekst að púsla brotunum saman þegar fyrrverandi eiginkona hans Kate (Amanda Peet) og kærasti hennar Gordon Silberman (Thomas McCarthy) lenda í því að stórmarkaður þar sem þau versla klofnar í tvennt, og Curtis sem hefur aukastarf  sem bílstjóri lúxuskerru, kemst að því að ríkisbubbar eru að flýja svæðið og sonur Yuri Karpovs (Zlatko Buric), rússnesks boxara og auðkýfings, segir honum hreint út að hann muni fljótlega deyja eins og allir aðrir í heiminum nema útvaldir.

2012_07

Allt smellur þetta saman í huga Curtis, og þetta er bara á fyrstu mínútum myndarinnar, og hann ákveður að leita arkarinnar og bjarga fyrrum eiginkonu sinni og börnum, ásamt lýtalækninum Gordon sem kom í hans stað, leigja flugvél og flýja áður en heimurinn hrynur. Og hann er byrjaður að hrynja. Curtis nær fjölskyldu sinni nokkrum sekúndum áður en borgin tekur að falla saman, og ekur á lúxuskerrunni gegnum borg sem hrynur saman fyrir augum hans. Hefst þar einn skemmtilegasti eltingarleikur sem ég hef séð í kvikmynd, náttúran sjálf gegn fráskilinni kjarnafjölskyldu.

2012_08

George Seagal kemur einnig sterkur til leiks sem gamli söngvarinn Tony á risasnekkjunni Genesis, og aðrar eftirminnilegar aukapersónur eru flugmaðurinn Sasha (Johann Urb) sem á eitt augnablik sem minnir á atriði úr Indiana Jones and the Temple of Doom (1984) og kynbomban Tamara (Beatrice Rosen) sem reynist aðeins flóknari persóna en mann grunaði þegar hún fyrst birtist. Einnig eiga kínverskir verkamenn fulltrúa í hetjunni Tenzin (Chin Han), sem reynist úrræðagóður þegar í ljós kemur að verkamennirnir sem unnu að gerð arkarinnar fá ekki farmiða, en hann er bróðir búddamunksins Nima (Osric Chau) sem hefur fengið tækifæri til að bjarga afa sínum og ömmu undan hamförunum. Thandie Newton er svo dóttir forseta Bandaríkjanna.

2012_09

Tæknibrellurnar eru án vafa það besta sem ég hef séð. Taktu fallegustu útsýnismyndir sem þú getur hugsað þér og fáðu þær til að hrynja innanfrá í fullkomnu samræmið við lögmál eðlisfræðinnar, og þá kemstu nálægt því að ímynda þér hvað þú munt sjá í þessari mynd. Þó að þetta sé hörmungarmynd, þá er hún ekki sorglegur harmleikur, heldur meira léttmeti - ævintýri venjulegs fólks við afar óvenjulegar aðstæður.

Sagan er full af klisjum, en persónur og leikarar það góðar, og húmorinn settur það skemmtilega fram, eins og þegar hæna ein á skondið augnablik undir öxi kínverskrar ömmu, ásamt ógleymanlegum tæknibrellum, og hnyttnum skotum á samtímastjórnmál, spillingu og vinargreiða, að hún hittir beint í mark.


Surrogates (2009) ***1/2

Surrogates

Surrogates er mun skemmtilegri vísindaskáldsaga en ég átti von á, og vísar aðeins í hellislíkingu Platóns, en það eitt gefur henni hálfa stjörnu aukalega. Bruce Willis stendur líka alltaf fyrir sínu, í ágætlega leikstýrði mynd Jonathan Mostow, en hann hefur gert nokkrar sæmilegar spennumyndir eins og “Terminator 3: Rise of the Machines” (2003), “U-571″ (2000) og eina þrusugóða; “Breakdown” (1997)  með Kurt Russell.

Í nálægri framtíð, ekki ólíkri okkar eigin nútíð, fyrir utan að flestar manneskjur lifa í gegnum tölvuskjá og þykjast vera flottari og betri en þær eru í raun og veru. Bíddu nú aðeins! Er þetta ekki nútíminn?

Nei, málið er að persónan sem maður stjórnar er ekki bara nafn á tölvuskjá, karakter í tölvuleik eða undirskrift áhrifamanns, heldur vélmenni sem hlýðir í einu og öllu hugsunum notandans. Þannig getur fimmtugur karlmaður þóst vera 18 ára stúlka, sjötug kona þóst vera fegurðardrottning (eins og allir hinir) og sextug lögga hlaupið og stokkið af gífurlegum krafti. Mannfólkið hefur sætt sig við þennan heim þar sem vélmenni sinna öllum þeirra verkum, lifa í gegnum þau til að öðlast ánægju og hafa samskipti við annað fólk, en það er samt eitthvað sem virðist vanta í lífið.

Surrogates01
Bruce Willis í “Surrogates”

Bruce Willis uppgötvar það, þegar hann þarf á konunni sinni að halda, Maggie (Rosamund Pike), en fær ekkert annað en stuðning vélmennis hennar, að ekkert jafnast á við nærveru annarrar manneskju, sama þó að hún sé kannski krumpuð og ófullkomin að einhverju leyti. Í heimi þar sem manneskjur eru háðar fullkomleika og æskudýrkun, og eldra fólk fær tækifæri til að lifa sem ungt og hresst fólk, þó það sé í gegnum vélmenni, væri slík freisting ekki þess virði?

Það kaldhæðnislega er hversu nálægur þessi heimur er okkar eigin veruleika. Það er til fólk sem virðist lifa í gegnum sjónvarpið eða netið, og þurfa í raun ekki á neinu öðru að halda. Hægt er að vinna gegnum netið, fá mat sendan heim, sofa heima. Það þarf í raun ekki alvöru mannleg samskipti lengur til að komast af. Kvikmyndin fjallar um þennan greinarmun á mannlegum veruleika og sýndarveruleika, nokkuð sem við eigum raunverulega erfitt með að greina í sundur, enda fjöldi fólks sem tekur til dæmis fréttir úr sjónvarpi eða öðrum miðlum mun alvarlegar en að takast á við eigin vandamál sem það upplifir sjálft. Einhvern veginn virðist eigin líf verða léttvægari til samanburðar við stóratburðina úti í heimi, við erum svo lítil í samanburði.

Surrogates03
Rosamund Pike í “Surrogates”

Þegar sonur uppfinningamannsins Older Canter (James Cromwell) er myrtur af manni með furðuvopn sem getur grillað heila notanda vélmennis með því að skjóta í augu vélmennisins, þá fara hlutir að gerast. Bruce Willis er rannsóknarlögreglumaðurinn Tom Greer, en ekkert morð hefur verið framið í fjölmörg ár, þannig að þetta verður strax svolítið sérstakt. Reyndar velti ég fyrir mér af hverju morðdeild sé enn rekin mörgum  árum eftir að morð eru ekki lengur framin, en það er aukaatriði. Hann rannsakar málið ásamt félaga sínum Peters sem leikin er af  Radha Mitchell.

Í ljós kemur að það er stórt stjórnmálaplott í gangi sem Greer þarf að sjá í gegnum og leysa ásamt morðmálinu, og þar að auki finna merkingu með eigin innantómu lífi, nokkuð sem hann uppgötvar þegar vélmennið hans er drepið og krossfest.

Inn í söguna blandast Predikarinn, leikinn af Ving Rhames, en síðast þegar ég sá þá saman á hvíta tjaldinu var í Pulp Fiction, en þá var Rhames nauðasköllóttur með plástur á hnakkanum en nú er hann dúðaður með svart jólasveinaskegg og minnir helst á risastóran bangsa. Annars viðurkenni ég að söguþráðurinn er frekar þunnur, og allar aðrar persónur en Tom Greer frekar flatar, en þannig hlýtur lífið að vera í heimi þar sem flatskjáir eru lífið sjálft.

Þriggja stjörnu mynd sem ég gef þrjár og hálfa fyrir að vera svolítið heimspekileg.


G.I. Joe: The Rise of Cobra (2009) *1/2

GIJoe

Flottar tæknibrellur, mikill hasar, mikil læti, flatur söguþráður og persónur. Ef það er eitthvað þig, kíktu þá á “G.I. Joe: The Rise of Cobra”, sem leikstýrð var af hinum mistæka Stephen Sommers, en hann gerði hina bráðskemmtilegu “The Mummy” fyrir nokkrum árum síðan.

Einn stærsti galli myndarinnar er hvernig hún er sögð í alltof mörgum minningarleiftrum (flashbacks), þannig að maður nær í raun aldrei að kynnast þeim persónum sem eiga að skipta miklu máli fyrir hinar persónurnar. Maður fær aldrei að vita af hverju hinn góði Rex (Joseph Gordon-Levitt) breytist í klikkaðan vísindamann, þó að það sé lykilatriði í sögunni sem tengist systur hans Ana (Sienna Miller) sem af einhverjum ástæðum er eitt af aðal illmennunum en var áður trúlofuð Duke. Greinilega ofhlaðin hugmyndum sem því miður leiða ekki í neinar áhugaverðar áttir.

Channing Tatum og Marlon Wayans í Channing Tatum og Marlon Wayans í "G.I. Joe: The Rise of Cobra"

G.I. Joe er sérsveitarherdeild sem stjórnað er af hershöfðingja Hawk leiknum af Dennis Quaid, en þeir Duke og besti vinur hans Ripcord (Marlon Wayans) eru boðnir velkomnir í hópinn eftir að hafa bjargað stórhættulegum vopnum frá því að lenda í höndum geðveiks Skota sem stundum heitir James McCullen og er stundum af einhverjum ástæðum kallaður Destro (Christopher Eccleston).  Einhvern veginn blandast Arnold Voslo inn í söguna sem hamskiptir, Jonathan Pryce sem forseti Bandaríkjanna, og Brendan Fraser sem þjálfari fyrir nýja hermenn.

Einhvern veginn hefur Destro tekist að þróa stórhættulegt lífrænt vopn, sprengju sem inniheldur tölvustýrðar örverur sem éta allt sem þær komast í. Séu þær skyldar eftir í gangi geta þær étið alla Jörðina og sjálfsagt sólina og sjálf sig með. Atriðin þar sem þessar örverur éta sig í gegnum allt mögulegt eru afar vel gerð og flott, en passa einhvern veginn ekki inn í söguna, sem er alltof þunn fyrir svona flott atriði.

Mér fannst myndin ekki skemmtileg. Þegar vel var liðið á myndina var ég orðinn leiður, farinn að líta á klukkuna, óþolinmóður. Það var mikið að gerast á skjánum, en ekkert að gerast í sögunni. Þegar það gerist leiðist mér. Ekki beinlínis það sem ég sækist eftir þegar ég horfi á bíómynd.


The Taking of Pelham 1 2 3 (2009) **

Layout 1

"The Taking of Pelham 1 2 3" er endurgerð samnefndrar myndar sem ég hef ekki séð. Þrátt fyrir að hafa hinn afbragðsgóða Denzel Washington og hinn afar mistæka John Travolta í aðalhlutverki, í leikstjórn hins alltaf áhugaverða Tony Scott, bróður Ridley Scott, þá er eitthvað sem klikkar í ferlinu. Mig grunar að það sé handritið og áhugi leikstjórans á aukapersónum.

Það er gert mikið úr því að gera persónu Denzel Washinton, lestarstarfsmannsins Walter Garber, að þrívíðri og djúpri persónu. Við kynnumst eiginkonu hans og skilyrðislausri ást hennar til hans, við komumst að því að hann hefur gert alvarleg mistök í starfi og að brottrekstur er á næsta leyti, og við komumst að því að hann er hugrakkari en gengur og gerist. Allar aðrar persónur eru því miður í tvívídd.

Meðal þeirra er bófinn sem John Travolta leikur, en hann kallar sig Ryder, og hann rænir við fjórða mann neðanjarðarlest í New York til þess að eignast ógeðslega mikið af peningum. Hann notar síðan Denzel Washinton sem millilið til að fá peningana í hendurnar, en að sjálfsögðu er Denzel okkar hetja sem ætlar ekki að leyfa skúrkum að komast upp með vopnað rán og morð. Honum til aðstoðar á skrifstofunni er FBI samningamaðurinn Camonetti (John Torturro) sem gefur honum góð ráð.

TakingOfPelham123_01
Denzel Washington í "The Taking of Pelham 1 2 3"

Eins og flestar aðrar myndir Tony Scott er þessi samsett af flottum tökum sem allar eru örstuttar, myndavélin er stöðugt á flugi en fókusar samt vel á atburðarrásina, en því miður mistekst kvikmyndagerðarmönnunum algjörlega í mjög mikilvægu atriði. Helsta vægið í myndinni eru farþegar lestarinnar sem teknir eru gíslingu. Þessir gíslar eru fyrir áhorfandann ekkert annað en hlutir, það er ekki einu sinni reynt að skapa persónur sem skipta máli. Það hefði ekki komið mér á óvart þó að borgarstjóri New York borgar, leikinn af James Gandolfini, hefði einfaldlega sent orrustuþotu í sjálfsmorðsárás inn í lestargöngin til að ganga frá vandamálinu.

Þá hefði að minnsta kosti eitthvað almennilegt gerst.

Mér datt í hug á meðan ég horfði á myndina að kannski hefði Denzel Washinton ekki lengur neitt merkilegt fyrir stafni fyrst Barack Obama er kominn í hvíta húsið. Hann hefur gert fjölda kvikmynda sem hafa barist fyrir sjálfsvirðingu afrísk-ameríkanska kynþáttarins, og nú er kannski kominn tími fyrir hann til að slaka á og safna auðunnum ávísunum.

TakingOfPelham123_03
John Travolta í "The Taking of Pelham 1 2 3"

John Travolta, og hinir leikararnir sem ég minntist á, eru allir ágætir í sínum hlutverkum, og persóna Travolta er meira að segja sú áhugaverðasta sem birtist, en því miður fáum við aldrei að læra neitt um hana annað en að einu sinni var hún milljarðamæringur á Wall Street sem lenti í fangelsi og nýsloppin er gaurinn ákveðinn í að græða pening á nýjan leik. Við vitum ekki af hverju hann er bitur. Kannski vegna þess að hann var að svíkja fé út úr saklausi fólki rétt eins og allir hinir, en hann var bara svo óheppinn að lenda í fangelsi fyrir glæpinn á meðan flestir aðrir ganga enn lausir.

Ég hefði vilja vita meira um hann.


Svæði 9 (2009) ****

 

District9_Poster

District 9 er ein af þessum myndum sem bara poppa einhvern veginn upp og slá svo algjörlega í gegn. Neill Blomkamp hefur ekki leikstýrt neinum þekktum myndum, en komið að tæknibrellum í Smallville og ekkert gert sem gefur til kynna að hann geti leikstýrt stórmynd. Ekki fyrr en Peter Jackson tók hann upp á arma sína og framleiddi District 9, en upphaflega ætluðu þeir að gera Halo saman, mynd byggða á hinum vinsæla tölvuleik. Reyndar er District 9 lauslega byggð á þessum tölvuleik og meira að segja vísað í hana einu sinni þegar aðalandhetjan bendir á mynd af konu sinni og talar um að hún hafi geislabaug.

District9_01

Geimverur lentu næstum á jörðinni á áttunda áratugnum og geimskip þeirra svífur yfir Jóhannesarborg í Suður Afríku næstu 20 árin. Geimverurnar voru vannærðar og illa á sig komnar, og ljóst að geimskipið hafði einfaldlega stranda yfir borginni. Vegna þess hversu ljótar geimverurnar eru kalla menn þær Sveskjur. Sveskjunum er komið fyrir í flóttamannabúðum, en vegna offjölgunar er ákveðið að flytja búðirnar út úr borginni. Umsjónarmaður flutningsins er einfeldningurinn Wikus Van De Merwe (Sharlto Copley) en hann fer ásamt kvikmyndatökumönnum á svæðið á meðan hann vísar Sveskjunum út af heimilum sínum. Hann áttar sig engan veginn á alvarleika málsins.

District9_03

Svo gerist það í einum Sveskjukofa að hann finnur ílát með svörtum vökva sem sprautast í andlit hans, með alvarlegum afleiðingum. Þegar Wikus uppgötvar hvernig farið er með Sveskjurnar eins og skepnur, fer hann að finna til með þeim og veltur fyrir sér hvort að hann sé mögulega í vitlausu liði. Getur verið að í stríði á milli geimvera og mannvera séu geimverurnar góði gaurinn en mannveran hinn illi?

District9_04

Sagan stigmagnast úr einföldum fræðslumyndastíl yfir í stórfenglegar tæknibrellur sem eiga einungis heima í úrvals vísindatrylli, sem District 9 vissulega er, og kemst á blað með allra skemmtilegust vísindaskáldsögum á hvíta tjaldinu frá upphafi. Leikararnir standa sig allir sem einn með ágætum, geimverurnar eru trúverðugar og tæknibrellurnar með því besta sem sést hefur. Það er meira að segja hörkuspennandi bardagi á milli herdeildar manna og vélmennis, sem er margfalt betri en það sem maður sá í annars sæmilegri Terminator: Salvation fyrr í sumar.

District 9 er ein af þessum myndum sem þú verður að sjá í bíó.


Alræmd (1946) ***1/2

 

NotoriousPoster

 

Notorious er merkilega spennandi og eftirminnileg rómantísk njósnamynd þar sem aðal skúrkurinn minnir töluvert á Norman Bates úr Psycho vegna undarlegs ástarsambands hans við móður sína, án þess þó að hann höggvi fólk í bita eins og Bates var frægur fyrir. Hann er nasisti, sem gerir hann náttúrulega sjálfkrafa að erkiskúrk, sama hvernig hann hagar sér.

 

Notorious02

 

Faðir Alicia Hubermann (Ingrid Bergman) hefur verið sóttur til saka og dæmdur fyrir stríðsglæpi sem í nafni nasisma. Alicia hatar föður sinn vegna óafsakanlegra glæpaverka hans og bandaríska leyniþjónustan hefur undir höndum upptöku þar sem hún rífst við föður sinn og segist elska Bandaríkin. Hún á erfitt með að sættast við sjálfa sig með sína arfleifð og hefur hug á að bæta fyrir grimmdarverk föður síns. Það er nóg til að leyniþjónustan sendir einn af útsendurum sínum, T.R. Devlin (Cary Grant) til að fá hana í samvinnu. Ráðningin gengur aðeins of vel, þar sem Devlin og Alicia verða yfir sig ástfangin hvort af öðru, en eru bæði of stolt til að viðurkenna það.

 

Notorious03

 

Hún tekur þó starfinu og saman fara þau til Brasilíu, þar sem hún á að njósna um fyrrum kærasta sinn, nasistann Alexander Sebastian (Claude Rains), en hann er eitthvað að brugga með hópi landflótta nasista. Hans helsti bandamaður er móðir hans, Anna Sebastian (Leopoldine Constantine) sem grunar Alicia strax um græsku. En Alicia fórnar miklu fyrir land sitt og málstað, rétt eins og James Bond, og er tilbúin að gera hvað sem er til að nálgast upplýsingar sem geta gert þjóð hennar gagn gegn gömlu nasistunum.

Myndin fer hægt af stað og mér fannst persónur og aðstæður frekar ótrúverðugar í upphafi. Ingrid Bergman tókst jafnvel að fara svolítið í taugarnar á mér með því hvernig hún flaðraði stöðugt upp um Cary Grant, en svo áttaði ég mig á því að þetta var nauðsynlegur hlekkur til að sagan gengi upp, til að magna spennuna sem verður ansi mögnuð í lok myndarinnar, þar sem alls er óvíst um örlög njósnaranna.

 

Notorious01

 

Það er ekki fyrr en Claude Rains birtist á skjánum að myndin fær nýtt líf. Þar fer úrvalsleikari sem tókst að dýpka Notorious og gera hana að miklu meira en einföldum njósnatrylli, og gera hann þess í stað margbrotinn, með afar góðri persónusköpun og leik.

 


Hugfangin (1945) ****

Spellbound (1945) ****

SpellboundPoster

Flestar Hitchcock myndir eru betri í dag heldur en flestar myndir sem koma út í dag. Það á við um Spellbound. Maður veit aldrei hverju maður getur átt von á þegar Hitchcock er annars vegar, og því borgar sig að lesa sem minnst um söguþráð myndarinnar áður en horft er á hana. Það á einnig við þegar þú lest þessa gagnrýni.

Dr. Constance Petersen (Ingrid Bergman) er ungur og snjall sálfræðingur á stofnun fyrir fólk sem á við geðraskanir að stríða. Vegna taugaáfalls hefur yfirmanni hennar, Dr. Murchison (Leo G. Carroll) verið sagt upp störfum og í hans stað kemur hinn ungi Dr. Anthony Edwardes (Gregory Peck), nema að það er eitthvað undarlegt í fari hins nýja læknis.

Spellbound02

Constance kolfellur fyrir honum og er hugfangin frá því þau sjást í fyrsta sinn. Það skiptir hana engu máli þó að Anthony sýni merki um að eitthvað alvarlegt sé að í hausnum á honum, en hann þolir ekki að sjá bletti eða línur á hvítum flöt, án þess að missa vitið. Það getur verið svolítið óhentugt fyrir stjórnanda geðsjúkrahúss. Þegar í ljós kemur að hinn ungi Edwardes er hugsanlega alls ekki sá sem hann þykist vera, þykknar plottið og leikurinn færist út úr spítalanum, til New York og síðan víðar.

Spellbound03

Spellbound er kvikmynd sem ætti að vera skylduáhorf fyrir alla sálfræðinga, en það er fjallað afar skemmtilega um sálgreiningu og læknisfræðileg gildi hennar þegar unnið er með hana af skynsemi. Það að kvikmynd um sálgreiningu geti verið jafn spennandi og Spellbound reyndist vera segir ýmislegt um leikstjórann Hitchcock, sem oftast tókst að gera meistaraverk úr frekar takmörkuðu efni.

Eitt atriði fannst mér alveg frábært, en þar eru sjónarhorn, tónlist og svipbrigði Ingrid Bergman notuð til að sýna hvernig ísköld kona bráðnar í funheitan leir þegar hún verður hugfangin að manni sem hún þekkir ekki neitt. Það er atriði sem endurspeglast síðar í myndinni, þegar hún uppgötvar annan mikilvægan sannleika. Myndhverfingin sem er notuð er ljós undir hurð þegar hún er komin í efstu þrep á tröppum, sem má vissulega skilja sem ferðalag hugans að sannleikanum, og það hugrekki sem þarf til að ljúka upp síðustu hurðinni og horfast í augu við sannleikann. Ég elska þetta atriði!

Spellbound04

Einnig er afar skemmtilegt hvernig listaverk Salvador Dali eru notuð til að sýna inn í draumaheim persóna, en þar eru dýpstu ráðgáturnar ráðnar. Michael Checkov er einnig afar eftirminnilegur sem sálgreinir, sem útskýrir eftirminnilega gildið í fræðum Freud, á meðan hann minnir mann óneitanlega á prófessor Vandráð úr Tinnabókunum.

Spellbound01

Spellbound er klassík!


Frúin hverfur (1938) ***1/2

The Lady Vanishes (1938) ***1/2

TheLadyVanishesPoster

The Lady Vanishes er eitt af meistaraverkum Hitchcock. Hægt væri að uppfæra hana eitthvað fyrir bíó í dag, en ég efast um að persónurnar yrðu allar jafn skýrar og eftirminnilegar og þær sem birtast hérna. Það eina sem skyggir á myndina er ansi lélegt módel í upphafi myndar, þar sem er einfaldlega alltof greinilegt að myndavél svífur ekki yfir raunverulegar byggingar, heldur smáhús og smálest. Annað er flest vel gert.

TheLadyVanishes01

Fjöldi Englendinga eru strandaglópar í litlu ítölsku þorpi vegna snjóflóðs sem fallið hefur yfir lestarteina, og verða því að gista saman á hóteli yfir eina nótt. Þar fáum við að kynnast þessum einstaklingum: tveimur yfirborðskenndum breskum herramönnum, pari sem eru bæði að halda framhjá, eldri konu sem er á leið heim eftir sex ára veru í þorpinu, ungri konu sem finnst hún hafa upplifað nóg ævintýri og ætlar nú heim til Englands í hjúskap, og kærulaus listamaður sem virðist nokkuð sama um annað fólk.

TheLadyVanishes02

Á leiðinni heim til Englands hverfur hins vegar gamla konan; frú Froy (Dame May Whitty) á dularfullan hátt, og sú eina til að undrast yfir hvarfinu er unga konan á leið í hjónabandið, Iris Henderson (Margaret Lockwood), sem tekst að heilla listamanninn Gilbert (Michael Redgrave) til að leita um alla lestina að konunni sem hvarf. Eftir árangurslausa leit, þar sem enginn virðist kannast við að hafa nokkurn tíma séð gömlu konuna, og Iris er farinn að telja sjálfa sig geðveika, verður Gilbert var við vísbendingu sem fær hann til að trúa sögu Iris.

Þau uppgötva að það er raunverulegt samsæri í gangi sem þau óvart afhjúpa, þar sem ítalskir fasistar ætla sér greinilega eitthvað annað en friðsælt samstarf með Englendingum. Það eina sem þau þurfa að gera er að komast lífs af úr ógöngunum.

TheLadyVanishes03

Helsti styrkur kvikmyndarinnar er persónusköpunin, en hver einasta persóna er eftirminnileg og stendur ljóslifandi eftir í minningunni eftir að kvikmyndinni lýkur. Í upphafi var myndin leikin eins og um gamanmynd væri að ræða, en þegar leðurklæddu fasistalöggurnar blandast inn í sögufléttuna og farþegar byrja að týna tölunni, fer plottið að þykkna og alvara komin í leikinn.

Ég hafði fyrir löngu ákveðið að horfa á The Lady Vanishes, þar sem margoft hefur verið mælt með henni, en samt var ég tregur til að kíkja á hana, enda 71 árs gömul mynd, og ég hélt satt best að segja að hún yrði frekar leiðinleg en skemmtileg, að maður þyrfti hálfpartinn að hafa ofan af fyrir henni fyrir að vera svona gömul. Sú var ekki raunin. Þess í stað naut ég einstakrar skemmtunar, sem ég efast um að verði leikin eftir af þeim sem búa til kvikmyndir í Hollywood í dag.


Lengdargráða (2000) ****

 

 

Stöku sinnum læðast þrumugóðar kvikmyndir hægt og hljótt aftan að manni og grípa mann slíkum tökum að maður getur ekki slitið sig frá þeim. Longitude er slík mynd. Ég hafði aldrei heyrt um hana, en ákvað að gefa henni tækifæri aðallega vegna þess að Jeremy Irons, Michael Gambon og Brian Cox voru titlaðir sem aðalleikarar, en ég hef lengi haft sérstaklega gaman af Cox. Ég fann eintakið á bókasafni í Bærum og ætlaði bara rétt að kíkja, enda er hún 250 mínútur að lengd og ég reiknaði ekki með að hafa þolinmæði í slíka kvikmynd. Hún leið hratt.

 

Longitude02

 

Sagan segir af 18. aldar trésmiðnum John Harrison (Michael Gambon) og syni hans William (Ian Hart), en sá fyrrnefndi ákveður að taka þátt í samkeppni á vegum bresku krúnunnar um gerð á tæki sem á að hjálpa sjófarendum að greina lengdargráður á siglingum. Hann smíðar klukku sem leysir dæmið nokkuð vel, en þó með smávægilegum skekkjum, sem valda því að uppfinningu hans er hafnað í samkeppninni. Samt berst hann áfram ásamt syni sínum næstu fimmtíu árin, og lætur ekki forvitni og hindurdóma hjátrúarfullra gervivísindamanna stöðva sig, þó að þeir geri sitt besta til að hindra framþróun sem hentar þeim sjálfum ekkert sérlega vel.

Forsenda verkefnisins var sú að sjómenn voru stöðugt að sigla skipum í strand vegna ónákvæmra mælinga, en með klukku sem gæti gengið rétt á sjó, sem er vandasamt verk vegna þess hvernig skip rugga og úrverkið viðkvæmt fyrir slíku, væri hægt að mæla af nákvæmi skipsins á hverri stundu.

 

Longitude01

 

Samhliða sögunni um úrsmiðinn sem gerist trésmiður fáum við að fylgjast með samhliða sögu um Rupert Gould í upphafi 20. aldar (Jeremy Irons) og ást hans á uppfinningum Harrison, og hvernig hann vinnur að endurheimt þeirra úr gleymni sögunnar og vanhirðu. Eftir hermennsku í heimstyrjöldinni fyrri fær hann taugaáfall, sem ekkert getur róað annað en gangverk í klukku. Smám saman fjarlægist hann eigið líf, verður heltekinn af verkefninu og sekkur inn í söguna sem liggur að baki gangverki þessara merkilegu tímavarða.

Sögurnar tvær passa afar vel saman, enda gífurlega vel leiknar og haldið algjörlega uppi af stórleikurunum Gambon og Irons, en mest kom þó á óvart Ian Hart í hlutverki William, leikari sem ég kannaðist ekkert við en stóð sig frábærlega í sínu hlutverki.

Mörgum gæti þótt þessi mynd langdreginn, þar sem að tempóið er ekkert sérlega hratt, en leyfirðu þér að sökkva þér inn í líf þessara persóna færðu að njóta mjög fróðlegrar og skemmtilegrar kvikmyndar sem gleymist ekki í bráð.

Kíktu á kynningarmyndband fyrir Longitude á YouTube.


Úlfsmaðurinn (1941) ***

 

TheWolfManPoster

The Wolf Man er ein af upphaflegu skrímslamyndum Universal Pictures, en þetta er önnur varúlfamyndin sem gerð var. Sú fyrsta var Werewolf of London (1935). Sem skrímslamynd er The Wolf Man klassík þó að tíminn hafi leikið hana svolítið illa. Persónurnar eru heldur ekkert sérstaklega sterkar eða vel leiknar og ljóst að það hefur verið svolítið gaman hjá kvikmyndagerðarmönnunum á meðan tökur stóðu yfir. Þrátt fyrir allt er gaman að horfa á þessa mynd og horfa á Lon Chaney Jr. umbreytast í varúlf, sem samanstendur reyndar af frekar hallærislegu gervi þegar maður ber það saman við snilld eins og American Werewolf in London (1981).

Wolfman02

Lawrence Talbot (Lon Chaney Jr.) kemur heim til föður síns í Englandi eftir 18 ára fjarveru sem á að útskýra bandarískan hreim leikarans. Einnig er líkamsbygging hans og Claude Rains, sem leikur föður hans John, svo ólík að maður er strax sannfærður um að Larry hafi verið getinn í framhjáhaldi. Að öllu gamni slepptu byrjar sagan á því að John Talbot fær stjörnukíki sendan heim og sonur hans setur hann saman. Eftir vel heppnaða samsetningu fer Larry kallinn að kíkja á nágrannana, og kemur þá auga á gullfallega stúlku sem stendur í glugga yfir forngripabúð.

Gerist Larry nú frakkur mjög og heimtar stefnumót með stúlkunni og er algjörlega skítsama þó að hún sé trúlofuð, enda maðurinn sem hún ætlar að giftast aðeins starfsmaður hjá föður Larry. Þrátt fyrir höfnun, tekst Larry að fá Gwen Conliffe (Evelyn Ankers) með sér á hálfgert stefnumót, en vinkona þeirra fer með og heimsækja þau sígauna (Bela Lugosi) sem spáir fyrir um framtíð vinkonunnar, en áður en hann nær að spá stúlkunni sviplegum dauða breytist sígauninn í varúlf, eltir viðskiptavin sinn og étur hana. Larry kemur að þeim og berst hetjulega við varúlfinn, drepur hann, en er bitinn.

Wolfman03

Framhaldið þekkja allir sem hafa einhvern tíma séð varúlfamynd. Aðeins silfur getur drepið skrímslið sem birtist aðeins við fullt tungl.

Það er gaman að þessari mynd og vel virði þeirra 70 mínútna sem myndin tekur. Reyndar er hægt að sjá margfalt betri sjónvarpsþætti í dag sem fjallar um svipuð þemu, eins og Buffy the Vampire Slayer eða Supernatural, en þetta barn síns tíma hefur ákveðinn sjarma. Það verður gaman að sjá endurgerðina með þeim Benicio del Toro og Anthony Hopkins sem mun birtast í bíó 2010.

Directed byProduced byWritten byStarringCinematographyDistributed byRelease date(s)Running timeLanguageBudgetFollowed by
The Wolf Man
George Waggner
George Waggner
Curt Siodmak
Lon Chaney, Jr.
Claude Rains
Warren William
Ralph Bellamy
Patric Knowles
Bela Lugosi
Maria Ouspenskaya
Evelyn Ankers
Joseph Valentine, ASC
Universal Pictures
December 12, 1941
70 min
English
$180,000 (estimated)
Frankenstein Meets the Wolf Man

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband