Óforskammanlegir hrottar (1978) ***1/2
Mánudagur, 24. ágúst 2009
Óforskammanlegir hrottar er ein af þessum perlum kvikmyndasögunnar sem ég vissi ekki að væri til og hefði ekki vitað af ef Quentin Tarantino hefði ekki nefnt sína nýju mynd eftir þessari gömlu ítölsku stríðsmynd. Þetta er ekki á nokkurn hátt djúp mynd, heldur fyrst og fremst ein af þessum myndum þar sem ætlast er til þess að áhorfandinn taki virkan þátt. Aðalhetjurnar eru skúrkar og morðingjar, útlagar úr bandaríska hernum, sem er reyndar ekkert miðað við andstæðinga þeirra: nasista í Frakklandi seinni heimstyrjaldarinnar.
Persónurnar eru hver annarri skemmtilegri. Kvikmyndin fókusar á fimm bandaríska hermenn sem átti að flytja fyrir herrétt eða skjóta. Þeir ætla að flýja yfir landamærin, til Sviss, og slá þannig tvær flugur í einu höggi. Losna við eigin sekt og nasistana. Leiðtogi hópsins er flugmaðurinn Robert Yeager (Bo Svenson) sem hlustar frekar á eigin tilfinningar og réttlætiskennd en skipanir. Liðsmenn hans eru morðinginn Fred Canfield (Fred Williamson) sem gerir hópnum erfitt fyrir við að dulbúa sig sem þjóðverja, enda er hann dökkur á hörund. Aðrir liðsmenn eru rasistinn og vandræðagemlingurinn Tony (Peter Hooten), heigullinn Berle (Jackie Baseheart) og vasaþjófurinn úrræðagóði Nick (Michael Pergolani), sem í einu góðu atriði þarf að komast á mótorhjóli framhjá hópi nasista sem skjóta á eftir honum með vélbyssu. Ein kúla fer í tankinn sem hann bætir umsvifalaust með tyggjói. Ekki beint raunsætt, en skemmtilegt.
Á leið sinni til Sviss drepa þeir óvart hóp samherja sinna og taka yfir verkefni þeirra, sem er að stela mikilvægu hernaðarleyndarmáli frá nasistum. Það er skemmtilegt hvernig þessir óforskömmuðu fantar taka að sér verkið og leysa það, gegn öllum líkum. Bráðskemmtileg mynd, sem má alls ekki taka alvarlega. Takirðu henni á hennar forsendum áttu góðar stundir framundan.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Þetta er alvöru ræma , Tarantino býður uppá rusl.
Ómar Ingi, 24.8.2009 kl. 18:05
Enn ekki búinn að sjá Tarantino útgáfuna.
Kemst vonandi á morgun :)
Hrannar Baldursson, 24.8.2009 kl. 18:19
Ætla að sjá Drag Me To Hell aftur í kvöld
Ómar Ingi, 24.8.2009 kl. 18:46
Óskar: Hún er mögnuð.
Ómar: Þú átt það til að hafa góðan smekk. Stundum. :)
Don Hrannar, 27.8.2009 kl. 21:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.