Lengdargráða (2000) ****
Fimmtudagur, 3. september 2009
Stöku sinnum læðast þrumugóðar kvikmyndir hægt og hljótt aftan að manni og grípa mann slíkum tökum að maður getur ekki slitið sig frá þeim. Longitude er slík mynd. Ég hafði aldrei heyrt um hana, en ákvað að gefa henni tækifæri aðallega vegna þess að Jeremy Irons, Michael Gambon og Brian Cox voru titlaðir sem aðalleikarar, en ég hef lengi haft sérstaklega gaman af Cox. Ég fann eintakið á bókasafni í Bærum og ætlaði bara rétt að kíkja, enda er hún 250 mínútur að lengd og ég reiknaði ekki með að hafa þolinmæði í slíka kvikmynd. Hún leið hratt.
Sagan segir af 18. aldar trésmiðnum John Harrison (Michael Gambon) og syni hans William (Ian Hart), en sá fyrrnefndi ákveður að taka þátt í samkeppni á vegum bresku krúnunnar um gerð á tæki sem á að hjálpa sjófarendum að greina lengdargráður á siglingum. Hann smíðar klukku sem leysir dæmið nokkuð vel, en þó með smávægilegum skekkjum, sem valda því að uppfinningu hans er hafnað í samkeppninni. Samt berst hann áfram ásamt syni sínum næstu fimmtíu árin, og lætur ekki forvitni og hindurdóma hjátrúarfullra gervivísindamanna stöðva sig, þó að þeir geri sitt besta til að hindra framþróun sem hentar þeim sjálfum ekkert sérlega vel.
Forsenda verkefnisins var sú að sjómenn voru stöðugt að sigla skipum í strand vegna ónákvæmra mælinga, en með klukku sem gæti gengið rétt á sjó, sem er vandasamt verk vegna þess hvernig skip rugga og úrverkið viðkvæmt fyrir slíku, væri hægt að mæla af nákvæmi skipsins á hverri stundu.
Samhliða sögunni um úrsmiðinn sem gerist trésmiður fáum við að fylgjast með samhliða sögu um Rupert Gould í upphafi 20. aldar (Jeremy Irons) og ást hans á uppfinningum Harrison, og hvernig hann vinnur að endurheimt þeirra úr gleymni sögunnar og vanhirðu. Eftir hermennsku í heimstyrjöldinni fyrri fær hann taugaáfall, sem ekkert getur róað annað en gangverk í klukku. Smám saman fjarlægist hann eigið líf, verður heltekinn af verkefninu og sekkur inn í söguna sem liggur að baki gangverki þessara merkilegu tímavarða.
Sögurnar tvær passa afar vel saman, enda gífurlega vel leiknar og haldið algjörlega uppi af stórleikurunum Gambon og Irons, en mest kom þó á óvart Ian Hart í hlutverki William, leikari sem ég kannaðist ekkert við en stóð sig frábærlega í sínu hlutverki.
Mörgum gæti þótt þessi mynd langdreginn, þar sem að tempóið er ekkert sérlega hratt, en leyfirðu þér að sökkva þér inn í líf þessara persóna færðu að njóta mjög fróðlegrar og skemmtilegrar kvikmyndar sem gleymist ekki í bráð.
Kíktu á kynningarmyndband fyrir Longitude á YouTube.
Flokkur: Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 12:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.