Hugfangin (1945) ****

Spellbound (1945) ****

SpellboundPoster

Flestar Hitchcock myndir eru betri í dag heldur en flestar myndir sem koma út í dag. Það á við um Spellbound. Maður veit aldrei hverju maður getur átt von á þegar Hitchcock er annars vegar, og því borgar sig að lesa sem minnst um söguþráð myndarinnar áður en horft er á hana. Það á einnig við þegar þú lest þessa gagnrýni.

Dr. Constance Petersen (Ingrid Bergman) er ungur og snjall sálfræðingur á stofnun fyrir fólk sem á við geðraskanir að stríða. Vegna taugaáfalls hefur yfirmanni hennar, Dr. Murchison (Leo G. Carroll) verið sagt upp störfum og í hans stað kemur hinn ungi Dr. Anthony Edwardes (Gregory Peck), nema að það er eitthvað undarlegt í fari hins nýja læknis.

Spellbound02

Constance kolfellur fyrir honum og er hugfangin frá því þau sjást í fyrsta sinn. Það skiptir hana engu máli þó að Anthony sýni merki um að eitthvað alvarlegt sé að í hausnum á honum, en hann þolir ekki að sjá bletti eða línur á hvítum flöt, án þess að missa vitið. Það getur verið svolítið óhentugt fyrir stjórnanda geðsjúkrahúss. Þegar í ljós kemur að hinn ungi Edwardes er hugsanlega alls ekki sá sem hann þykist vera, þykknar plottið og leikurinn færist út úr spítalanum, til New York og síðan víðar.

Spellbound03

Spellbound er kvikmynd sem ætti að vera skylduáhorf fyrir alla sálfræðinga, en það er fjallað afar skemmtilega um sálgreiningu og læknisfræðileg gildi hennar þegar unnið er með hana af skynsemi. Það að kvikmynd um sálgreiningu geti verið jafn spennandi og Spellbound reyndist vera segir ýmislegt um leikstjórann Hitchcock, sem oftast tókst að gera meistaraverk úr frekar takmörkuðu efni.

Eitt atriði fannst mér alveg frábært, en þar eru sjónarhorn, tónlist og svipbrigði Ingrid Bergman notuð til að sýna hvernig ísköld kona bráðnar í funheitan leir þegar hún verður hugfangin að manni sem hún þekkir ekki neitt. Það er atriði sem endurspeglast síðar í myndinni, þegar hún uppgötvar annan mikilvægan sannleika. Myndhverfingin sem er notuð er ljós undir hurð þegar hún er komin í efstu þrep á tröppum, sem má vissulega skilja sem ferðalag hugans að sannleikanum, og það hugrekki sem þarf til að ljúka upp síðustu hurðinni og horfast í augu við sannleikann. Ég elska þetta atriði!

Spellbound04

Einnig er afar skemmtilegt hvernig listaverk Salvador Dali eru notuð til að sýna inn í draumaheim persóna, en þar eru dýpstu ráðgáturnar ráðnar. Michael Checkov er einnig afar eftirminnilegur sem sálgreinir, sem útskýrir eftirminnilega gildið í fræðum Freud, á meðan hann minnir mann óneitanlega á prófessor Vandráð úr Tinnabókunum.

Spellbound01

Spellbound er klassík!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Hvað er hægt að segja maðurinn var snillingur.

Ómar Ingi, 6.9.2009 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband