Alræmd (1946) ***1/2
Fimmtudagur, 10. september 2009
Notorious er merkilega spennandi og eftirminnileg rómantísk njósnamynd þar sem aðal skúrkurinn minnir töluvert á Norman Bates úr Psycho vegna undarlegs ástarsambands hans við móður sína, án þess þó að hann höggvi fólk í bita eins og Bates var frægur fyrir. Hann er nasisti, sem gerir hann náttúrulega sjálfkrafa að erkiskúrk, sama hvernig hann hagar sér.
Faðir Alicia Hubermann (Ingrid Bergman) hefur verið sóttur til saka og dæmdur fyrir stríðsglæpi sem í nafni nasisma. Alicia hatar föður sinn vegna óafsakanlegra glæpaverka hans og bandaríska leyniþjónustan hefur undir höndum upptöku þar sem hún rífst við föður sinn og segist elska Bandaríkin. Hún á erfitt með að sættast við sjálfa sig með sína arfleifð og hefur hug á að bæta fyrir grimmdarverk föður síns. Það er nóg til að leyniþjónustan sendir einn af útsendurum sínum, T.R. Devlin (Cary Grant) til að fá hana í samvinnu. Ráðningin gengur aðeins of vel, þar sem Devlin og Alicia verða yfir sig ástfangin hvort af öðru, en eru bæði of stolt til að viðurkenna það.
Hún tekur þó starfinu og saman fara þau til Brasilíu, þar sem hún á að njósna um fyrrum kærasta sinn, nasistann Alexander Sebastian (Claude Rains), en hann er eitthvað að brugga með hópi landflótta nasista. Hans helsti bandamaður er móðir hans, Anna Sebastian (Leopoldine Constantine) sem grunar Alicia strax um græsku. En Alicia fórnar miklu fyrir land sitt og málstað, rétt eins og James Bond, og er tilbúin að gera hvað sem er til að nálgast upplýsingar sem geta gert þjóð hennar gagn gegn gömlu nasistunum.
Myndin fer hægt af stað og mér fannst persónur og aðstæður frekar ótrúverðugar í upphafi. Ingrid Bergman tókst jafnvel að fara svolítið í taugarnar á mér með því hvernig hún flaðraði stöðugt upp um Cary Grant, en svo áttaði ég mig á því að þetta var nauðsynlegur hlekkur til að sagan gengi upp, til að magna spennuna sem verður ansi mögnuð í lok myndarinnar, þar sem alls er óvíst um örlög njósnaranna.
Það er ekki fyrr en Claude Rains birtist á skjánum að myndin fær nýtt líf. Þar fer úrvalsleikari sem tókst að dýpka Notorious og gera hana að miklu meira en einföldum njósnatrylli, og gera hann þess í stað margbrotinn, með afar góðri persónusköpun og leik.
Flokkur: Kvikmyndir | Facebook
Athugasemdir
Meistarverk eins og flest annað sem Hitch gerði
Ómar Ingi, 10.9.2009 kl. 22:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.