Vandamálið með Killshot er ekki leikararnir, heldur handritið og innihaldslítil saga um algjörlega flatar persónur sem maður trúir ekki eitt einasta augnablik að séu til. Maður kynnist aðeins einni persónu í myndinni, og er það fyrst og fremst vegna þess að leikarinn stendur sig með afbrigðum vel, en það er Joseph Gordon-Levitt í hlutverki aumingjans samviskulausa Richard Nix. Hann er núll og nix og leikur hann þannig.
Mickey Rourke er leigumorðingi mafíunnar og þar sem hann er blendingur, hálfur indíáni og hálfur kjáni, þá hefur hann indíánanafnið Svartfugl, sem Núll og Nix finnst frekar svalt. Svartfuglinn ákveður að elta uppi og drepa hjónin Carmen (Diane Lane) og Wayne Colson (Thomas Jane), en þau standa í skilnaði og hafa um margt annað að hugsa en einhvern leigumorðingja mafíunnar, en ástæða þess að hann ætlar að drepa þau er að Carmen sá andlit hans á meðan Nix gekk berserksgang á fasteignasölu, og að hann hafði nýlega framið morð í sömu borg. Upphrópunarmerki!
Leigumorðinginn óttast semsagt að Carmen geti bent á hann í vitnaleiðslu, þrátt fyrir að hún hefði engan áhuga á að blanda sér í slíkt rugl, og þar að auki er ekkert mál fyrir hann að setja á svið eigin dauða, sem hann reyndar gerir, en nei, ekki til að forðast lögguna eða mafíuna sem er á eftir honum, sem honum tekst að afgreiða á auðveldan hátt, nei ekki til að fara heim og halla sér, heldur til að tæla þau Carmen og Wayne úr felum.
Allir þessir leikarar geta leikið ágætlega, en Thomas Jane, Diane Lane og Mickey Rourke eru einfaldlega öll í vitlausri bíómynd. Diane Lane er svo furðu einhliða leikkona að ég skil ekki hvernig hún hefur getið sér nafn í kvikmyndaheiminum. Thomas Jane ætti frekar að eltast við hákarla sem synda afturábak, og Mickey Rourke mætti gefa meira af sjálfum sér, rétt eins og hann gerði þegar The Wrestler varð að klassískri kvikmynd fyrir um ári síðan.
Frekar slök mynd, sem má þó horfa á þegar manni er nákvæmlega sama um sögu, þema og karakter.
Killshot | |
Promotional film poster | |
John Madden | |
Lawrence Bender Richard N. Gladstein | |
Hossein Amini | |
Diane Lane Mickey Rourke Thomas Jane Joseph Gordon-Levitt and Rosario Dawson | |
Caleb Deschanel | |
Mick Audsley | |
The Weinstein Company | |
Israel November 13, 2008 United States limited January 23, 2009 | |
United States | |
English |