District 9 er ein af þessum myndum sem bara poppa einhvern veginn upp og slá svo algjörlega í gegn. Neill Blomkamp hefur ekki leikstýrt neinum þekktum myndum, en komið að tæknibrellum í Smallville og ekkert gert sem gefur til kynna að hann geti leikstýrt stórmynd. Ekki fyrr en Peter Jackson tók hann upp á arma sína og framleiddi District 9, en upphaflega ætluðu þeir að gera Halo saman, mynd byggða á hinum vinsæla tölvuleik. Reyndar er District 9 lauslega byggð á þessum tölvuleik og meira að segja vísað í hana einu sinni þegar aðalandhetjan bendir á mynd af konu sinni og talar um að hún hafi geislabaug.
Geimverur lentu næstum á jörðinni á áttunda áratugnum og geimskip þeirra svífur yfir Jóhannesarborg í Suður Afríku næstu 20 árin. Geimverurnar voru vannærðar og illa á sig komnar, og ljóst að geimskipið hafði einfaldlega stranda yfir borginni. Vegna þess hversu ljótar geimverurnar eru kalla menn þær Sveskjur. Sveskjunum er komið fyrir í flóttamannabúðum, en vegna offjölgunar er ákveðið að flytja búðirnar út úr borginni. Umsjónarmaður flutningsins er einfeldningurinn Wikus Van De Merwe (Sharlto Copley) en hann fer ásamt kvikmyndatökumönnum á svæðið á meðan hann vísar Sveskjunum út af heimilum sínum. Hann áttar sig engan veginn á alvarleika málsins.
Svo gerist það í einum Sveskjukofa að hann finnur ílát með svörtum vökva sem sprautast í andlit hans, með alvarlegum afleiðingum. Þegar Wikus uppgötvar hvernig farið er með Sveskjurnar eins og skepnur, fer hann að finna til með þeim og veltur fyrir sér hvort að hann sé mögulega í vitlausu liði. Getur verið að í stríði á milli geimvera og mannvera séu geimverurnar góði gaurinn en mannveran hinn illi?
Sagan stigmagnast úr einföldum fræðslumyndastíl yfir í stórfenglegar tæknibrellur sem eiga einungis heima í úrvals vísindatrylli, sem District 9 vissulega er, og kemst á blað með allra skemmtilegust vísindaskáldsögum á hvíta tjaldinu frá upphafi. Leikararnir standa sig allir sem einn með ágætum, geimverurnar eru trúverðugar og tæknibrellurnar með því besta sem sést hefur. Það er meira að segja hörkuspennandi bardagi á milli herdeildar manna og vélmennis, sem er margfalt betri en það sem maður sá í annars sæmilegri Terminator: Salvation fyrr í sumar.
District 9 er ein af þessum myndum sem þú verður að sjá í bíó.