Surrogates (2009) ***1/2

Surrogates

Surrogates er mun skemmtilegri vísindaskáldsaga en ég átti von á, og vísar aðeins í hellislíkingu Platóns, en það eitt gefur henni hálfa stjörnu aukalega. Bruce Willis stendur líka alltaf fyrir sínu, í ágætlega leikstýrði mynd Jonathan Mostow, en hann hefur gert nokkrar sæmilegar spennumyndir eins og “Terminator 3: Rise of the Machines” (2003), “U-571″ (2000) og eina þrusugóða; “Breakdown” (1997)  með Kurt Russell.

Í nálægri framtíð, ekki ólíkri okkar eigin nútíð, fyrir utan að flestar manneskjur lifa í gegnum tölvuskjá og þykjast vera flottari og betri en þær eru í raun og veru. Bíddu nú aðeins! Er þetta ekki nútíminn?

Nei, málið er að persónan sem maður stjórnar er ekki bara nafn á tölvuskjá, karakter í tölvuleik eða undirskrift áhrifamanns, heldur vélmenni sem hlýðir í einu og öllu hugsunum notandans. Þannig getur fimmtugur karlmaður þóst vera 18 ára stúlka, sjötug kona þóst vera fegurðardrottning (eins og allir hinir) og sextug lögga hlaupið og stokkið af gífurlegum krafti. Mannfólkið hefur sætt sig við þennan heim þar sem vélmenni sinna öllum þeirra verkum, lifa í gegnum þau til að öðlast ánægju og hafa samskipti við annað fólk, en það er samt eitthvað sem virðist vanta í lífið.

Surrogates01
Bruce Willis í “Surrogates”

Bruce Willis uppgötvar það, þegar hann þarf á konunni sinni að halda, Maggie (Rosamund Pike), en fær ekkert annað en stuðning vélmennis hennar, að ekkert jafnast á við nærveru annarrar manneskju, sama þó að hún sé kannski krumpuð og ófullkomin að einhverju leyti. Í heimi þar sem manneskjur eru háðar fullkomleika og æskudýrkun, og eldra fólk fær tækifæri til að lifa sem ungt og hresst fólk, þó það sé í gegnum vélmenni, væri slík freisting ekki þess virði?

Það kaldhæðnislega er hversu nálægur þessi heimur er okkar eigin veruleika. Það er til fólk sem virðist lifa í gegnum sjónvarpið eða netið, og þurfa í raun ekki á neinu öðru að halda. Hægt er að vinna gegnum netið, fá mat sendan heim, sofa heima. Það þarf í raun ekki alvöru mannleg samskipti lengur til að komast af. Kvikmyndin fjallar um þennan greinarmun á mannlegum veruleika og sýndarveruleika, nokkuð sem við eigum raunverulega erfitt með að greina í sundur, enda fjöldi fólks sem tekur til dæmis fréttir úr sjónvarpi eða öðrum miðlum mun alvarlegar en að takast á við eigin vandamál sem það upplifir sjálft. Einhvern veginn virðist eigin líf verða léttvægari til samanburðar við stóratburðina úti í heimi, við erum svo lítil í samanburði.

Surrogates03
Rosamund Pike í “Surrogates”

Þegar sonur uppfinningamannsins Older Canter (James Cromwell) er myrtur af manni með furðuvopn sem getur grillað heila notanda vélmennis með því að skjóta í augu vélmennisins, þá fara hlutir að gerast. Bruce Willis er rannsóknarlögreglumaðurinn Tom Greer, en ekkert morð hefur verið framið í fjölmörg ár, þannig að þetta verður strax svolítið sérstakt. Reyndar velti ég fyrir mér af hverju morðdeild sé enn rekin mörgum  árum eftir að morð eru ekki lengur framin, en það er aukaatriði. Hann rannsakar málið ásamt félaga sínum Peters sem leikin er af  Radha Mitchell.

Í ljós kemur að það er stórt stjórnmálaplott í gangi sem Greer þarf að sjá í gegnum og leysa ásamt morðmálinu, og þar að auki finna merkingu með eigin innantómu lífi, nokkuð sem hann uppgötvar þegar vélmennið hans er drepið og krossfest.

Inn í söguna blandast Predikarinn, leikinn af Ving Rhames, en síðast þegar ég sá þá saman á hvíta tjaldinu var í Pulp Fiction, en þá var Rhames nauðasköllóttur með plástur á hnakkanum en nú er hann dúðaður með svart jólasveinaskegg og minnir helst á risastóran bangsa. Annars viðurkenni ég að söguþráðurinn er frekar þunnur, og allar aðrar persónur en Tom Greer frekar flatar, en þannig hlýtur lífið að vera í heimi þar sem flatskjáir eru lífið sjálft.

Þriggja stjörnu mynd sem ég gef þrjár og hálfa fyrir að vera svolítið heimspekileg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ómar Ingi, 1.11.2009 kl. 22:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband