Frúin hverfur (1938) ***1/2

The Lady Vanishes (1938) ***1/2

TheLadyVanishesPoster

The Lady Vanishes er eitt af meistaraverkum Hitchcock. Hægt væri að uppfæra hana eitthvað fyrir bíó í dag, en ég efast um að persónurnar yrðu allar jafn skýrar og eftirminnilegar og þær sem birtast hérna. Það eina sem skyggir á myndina er ansi lélegt módel í upphafi myndar, þar sem er einfaldlega alltof greinilegt að myndavél svífur ekki yfir raunverulegar byggingar, heldur smáhús og smálest. Annað er flest vel gert.

TheLadyVanishes01

Fjöldi Englendinga eru strandaglópar í litlu ítölsku þorpi vegna snjóflóðs sem fallið hefur yfir lestarteina, og verða því að gista saman á hóteli yfir eina nótt. Þar fáum við að kynnast þessum einstaklingum: tveimur yfirborðskenndum breskum herramönnum, pari sem eru bæði að halda framhjá, eldri konu sem er á leið heim eftir sex ára veru í þorpinu, ungri konu sem finnst hún hafa upplifað nóg ævintýri og ætlar nú heim til Englands í hjúskap, og kærulaus listamaður sem virðist nokkuð sama um annað fólk.

TheLadyVanishes02

Á leiðinni heim til Englands hverfur hins vegar gamla konan; frú Froy (Dame May Whitty) á dularfullan hátt, og sú eina til að undrast yfir hvarfinu er unga konan á leið í hjónabandið, Iris Henderson (Margaret Lockwood), sem tekst að heilla listamanninn Gilbert (Michael Redgrave) til að leita um alla lestina að konunni sem hvarf. Eftir árangurslausa leit, þar sem enginn virðist kannast við að hafa nokkurn tíma séð gömlu konuna, og Iris er farinn að telja sjálfa sig geðveika, verður Gilbert var við vísbendingu sem fær hann til að trúa sögu Iris.

Þau uppgötva að það er raunverulegt samsæri í gangi sem þau óvart afhjúpa, þar sem ítalskir fasistar ætla sér greinilega eitthvað annað en friðsælt samstarf með Englendingum. Það eina sem þau þurfa að gera er að komast lífs af úr ógöngunum.

TheLadyVanishes03

Helsti styrkur kvikmyndarinnar er persónusköpunin, en hver einasta persóna er eftirminnileg og stendur ljóslifandi eftir í minningunni eftir að kvikmyndinni lýkur. Í upphafi var myndin leikin eins og um gamanmynd væri að ræða, en þegar leðurklæddu fasistalöggurnar blandast inn í sögufléttuna og farþegar byrja að týna tölunni, fer plottið að þykkna og alvara komin í leikinn.

Ég hafði fyrir löngu ákveðið að horfa á The Lady Vanishes, þar sem margoft hefur verið mælt með henni, en samt var ég tregur til að kíkja á hana, enda 71 árs gömul mynd, og ég hélt satt best að segja að hún yrði frekar leiðinleg en skemmtileg, að maður þyrfti hálfpartinn að hafa ofan af fyrir henni fyrir að vera svona gömul. Sú var ekki raunin. Þess í stað naut ég einstakrar skemmtunar, sem ég efast um að verði leikin eftir af þeim sem búa til kvikmyndir í Hollywood í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Snilld

Ómar Ingi, 5.9.2009 kl. 15:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband