Óforskammanlegir hrottar (2009) ****

Inglorious Basterds (2009) ****

 

Inglorious Basterds er afar vel heppnuð stríðsmynd úr seinni heimstyrjöldinni sem fléttar saman tveimur áhugaverðum sögum.

Ein sagan segir fra Shosanna Dreyfus (Melanie Laurent) og hvernig hún sleppur naumlega undan SS gyðingaveiðaranum Hans Landa (Christoph Waltz) sem er ábyrgur fyrir dauða allra í fjölskyldu hennar og síðan hvernig hún ætlar að hefna sín og sinna.

Hin sagan segir frá hópi bandarískra gyðinga sem kalla sig Inglorious Basterds, en þeirra hlutverk í stríðinu er að leita uppi og drepa alla nasista sem þeir finna, og skera af þeim höfuðleðrið, foringja hópsins til heiðurs, en þessi foringi er Aldo Raine (Brad Pitt) og fær hann verkefni í hendurnar sem víxlar reitum með hefndaráætlun Dreyfus og hinum eitursnjalla Hans Landa.

Persónurnar eru hver annarri betri. Hans Landa er Sherlock Holmes nasistanna, reykir meira að segja eins pípu. Aldo Raine er einfaldlega amerískur redneck sem virðist komast lengra á dirfsku en hugmyndaauðgi.Shosanna er síðan eina persónan sem áhorfandinn getur bundist alvörutilfinningaböndum, en hún er afar vel leikin af Laurent, og maður vill að saga hennar ljúki vel.

Red Apple sígarettur spila stærra hlutverk í þessari kvikmynd Tarantino, en þessi gerð líkkistunagla er eitt af hans helstuvörumerkjum. Einnig er hann óhræddur við að spila tónlist sem passar engan veginn við árið 1944, og setur David Bowie á fóninn í eftirminnilegu atriði þar sem Shosanna málar á sig stríðsmálningu í rauðum kjól.

Eli Roth, leikstjóri Hostel myndanna, leikur ansi skemmtilega aukapersónu, sem fær svo sannarlega útrás fyrir blóðþorsta sínum,sérstaklega þegar kemur að því að berja lífið úr nasistum meðhafnarboltakylfum og vélbyssukjöftum. Ég efast um að Hitler og hansmenn hafi nokkurn tíma fengið aðra eins útreið í bíómynd.

Þetta er ein af þessum myndum sem maður gæti skrifað um í afar löngu máli, enda eru aukapersónurnar ekkert síðri en aðalpersónurnar. Má þá sérstaklega nefna þýska nasistahatarann Hugo Stiglitz,kvikmyndastjörnuna Bridget von Hammersmark, þýska hermanninn sem varnýorðinn pabbi, mjólkurbónda í upphafi myndarinnar, elskhugi Shosanna,þýsk kvikmyndastjarna og stjörnuhermaður, SS hermaður sem er sérfræðingur í mállýskum og að ógleymdum skrímslinu sjálfu, Adolf Hitler.

Úrvals kvikmynd sem verður hægt að horfa á oft, enda full af skemmtilegum og líflegum persónum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Frábær mynd.  Ekta Tarantino. 

Christoph Waltz eignar sér myndina.  Fyrst hélt ég að Brad Pitt væri að klúðra þessu út af hreimnum.   En þetta smellur allt saman út af samhengi myndarinnar .  Pitt gæti ekki hafa gert þetta skemmtilegra.

Eini veiki punkturinn fannst mér þó Eli Roth.  Hann nær ekki að gera eitthvað óvenjulegt við sinn karakter.  Er bara "venjulegur" blóðþyrstur stríðsmaður  

En húrra fyrir  Christoph Waltz 

jonas (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 21:45

2 Smámynd: Ómar Ingi

Christoph Waltz  er það eina sem ánægjulegt er við þessa hörmung og lang verstu kvikmynd Tarantinos til þessa.

Rusl.

Ómar Ingi, 27.8.2009 kl. 22:39

3 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ómar: Magnað að þú skulir hafa orðið fyrir vonbrigðum með þessa. Hvað fannst þér klikka, fyrir utan allt nema Waltz?

Jónas: Eli Roth fannst mér standa sig vel, en vissulega eins og meðalmenni við hliðina á þessum afar góðu leikurum allt í kringum hann.

Hrannar Baldursson, 28.8.2009 kl. 15:59

4 Smámynd: Ómar Ingi

Eli Roth er nátturuega misheppnaður í alla staði jafnt bak við eða framan vélina.

Myndin er með endemum langdreginn og góðar senur eyðilagðar á lengd það er verið að nauðga áhorfendanum með Dialog sem er oftar en ekki rembingur.

Pitt sýnir sinn versta leik fyrr og síðar og gerir leikferill sinn ónýtan með því að taka þátt í þessum skrípaleik sem myndin vissulega er.

Ofbeldið er svo langt fyrir ofan allt sem prýða ætti svona ofbeldisatriði sem koma þó aðeins verulega 3 svar sinnum fram í mynd sem er 2 og hálfur + að lengd.

Illa gert oftar en ekki og myndin er í heild vandræðilega leiðinleg ég var að drepast úr leiðindum á þessari mynd sem mig hafði hlakkað mikið til að sjá án efa versta verk hans til þessa og vonandi að hann fari að einbeita sér að því að skrifa almennileg handrit en ekki að vera sjúga hvítt duft í hausinn sinn.

Fer í bækurnar mínar sem hans versta og ein af verstu myndum sem ég hef séð í ár og í langan tíma.

Sá annars loksins UP núna áðan og það er ræma í lagi og ein sú besta í ár.

Ómar Ingi, 29.8.2009 kl. 16:54

5 identicon

Ég sá myndina hér í Freiburg í Þýskalandi síðastliðið laugardagskvöld ásamt Þjóðverja, Austurríkismanni og Indverja. Myndi fannst mér góð skemmtun en þó heldur síðri en Kill Bill sem er í miklu uppáhaldi hjá mér. Áhugaverðast þótti mér að sjá hvernig farið var með ofbeldið gegn nasistunum. Þetta er líklegast sá hópur sem nýtur hvað minnstrar samúðar í sögubókum síðustu alda og því þykist ég skilja tilraunir Tarantino með mörk siðferðis og samúðar í augum almennings. Freiburg er íhaldssamur bær í Suður-Þýskalandi og fór síður en svo varhluta af ofsóknum nasista gegn gyðingum, en þeim var víst hópað saman á kirkjutorginu hér fyrir utan útidyrnar hjá mér áður en vesalings fólkið var sent í útrýmingarbúðir. Í því samhengi fannst mér merkilegt að sjá/heyra salinn skella upp úr þegar Hitler var skotinn í tætlur af gyðingingum, sem kvikmyndasagan hefur oftar en ekki sýnt í allt öðru ljósi.

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 31.8.2009 kl. 11:23

6 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sigurður: Svipuð viðbrögð upplifði ég í norska bíóinu þar sem ég sá myndina, en Norðmenn lentu frekar illa í nasistum eins og allir vita. Það var reyndar líka klappað í lok sýningar.

Hrannar Baldursson, 31.8.2009 kl. 11:30

7 identicon

RED APPLES ... me like alot

Hafliði Ingason (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 13:56

8 Smámynd: Don Hrannar

Búinn að sjá myndina Hafliði?

Don Hrannar, 3.9.2009 kl. 14:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband